Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fellur niður um tvö sæti á styrkleikalista FIFA. Ísland er núna í 40. sæti listans.
Íslendingar hafa hrapað niður styrkleikalistann síðasta rúma árið. Í febrúar 2018 var Ísland í 18. sæti listans og hefur aldrei verið ofar. Síðan hefur staða íslenska liðsins á styrkleikalistanum versnað til muna.
Í síðasta mánuði vann Ísland 0-2 sigur á Andorra í undankeppni EM 2020 en tapaði 4-0 fyrir heimsmeisturum Frakklands. Íslendingar hafa aðeins unnið einn af síðustu 17 leikjum sínum.
Engar breytingar eru á toppi listans. Belgar eru enn efstir, Frakkar í 2. sæti og Brasilíumenn í því þriðja. Englendingar hoppa upp um eitt sæti og í það fjórða.
Tvær Norðurlandaþjóðir eru fyrir ofan Ísland á styrkleikalistanum. Danmörk er í 10. sæti og Svíþjóð í því fjórtánda. Norðmennirnir hans Lars Lagerbäck falla niður um tvö sæti og eru í því fimmtugasta.
Íslendingar eru þriðju efstir af þeim liðum sem eru í þeirra riðli í undankeppni EM 2020. Eins og áður sagði eru Frakkar í 2. sæti listans. Tyrkir fara upp fyrir Íslendinga og eru í 39. sætinu. Albanía er í 62. sæti, Andorra í 134. sæti og Moldóva í 171. sæti.
Styrkleikalisti FIFA (efstu tíu):
1. Belgía
2. Frakkland
3. Brasilía
4. England
5. Króatía
6. Úrúgvæ
7. Portúgal
8. Sviss
9. Spánn
10. Danmörk
Listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.
Fallið niður um 22 sæti á styrkleikalistanum á rúmu ári
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
