Innlent

Vinnuvikan verði 36 stundir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, kynnir þann hluta nýundirritaðra kjarasamningaSGS og SA sem snúa að styttingu vinnuvikunnar.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, kynnir þann hluta nýundirritaðra kjarasamningaSGS og SA sem snúa að styttingu vinnuvikunnar. vísir/vilhelm
Í nýundirrituðum kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum er að finna ákvæði um styttingu vinnuvikunnar.

Á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í kvöld kynnti Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, þennan hluta samninganna en fara má ýmsar leiðir að því að stytta vinnuvikuna samkvæmt kynningunni í kvöld.

Allar virðast þær miða að því að stytta vinnuvikuna um fjórar klukkustundir, það er að hún verði 36 stundir í stað 40 eins og nú er. 

Flosi kynnti þær útfærslur sem finna má í kjarasamningi SGS og Samtaka atvinnulífsins en fram kom í máli hans að í kjarasamningum verslunarmanna sé einnig fjallað um styttingu vinnuvikunnar. 

Í kynningunni kom fram að lífskjarasamningurinn, eins og hann er kallaður, gefi starfsfólki möguleika á að kjósa um styttri vinnuviku á hverjum vinnustað fyrir sig. Starfsfólk og atvinnurekendur velja svo það fyrirkomulag sem hentar best á þeirra vinnustað.

Óbreytt fyrirkomulag er einn kostur en annar kostur er að starfsmenn og atvinnurekendur komist að samkomulagi um að nýta styttingu á hverjum degi. Samkvæmt kynningunni mun þá hver vinnudagur styttast um 53 mínútur.

Þriðji valmöguleikinn er að starfsmenn og atvinnurekendur semji um það að ljúka störfum rétt fyrir hádegi á föstudögum. Hver föstudagur myndi þá styttast um 212 mínútur.

Fjórði kosturinn er svo að starfsmenn taki frí annan hvern föstudag. Annar hver föstudagur væri þá viðbótarfrídagur.

Þar sem vélar stjórna hraða starfseminnar gætu starfsfólk og atvinnurekendur svo komist að samkomulagi um að nýta styttingu á hverjum degi. Hvíldarhlé væru svo útfærð á hverjum vinnustað eftir þörfum og aðstæðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Tengdar fréttir

Kjarasamningar undirritaðir

Kjarasamningar um þrjátíu stéttarfélaga og SA voru undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara um klukkan 22:20 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×