Tyrkneska félagið Galatasaray fékk Kolbein til sín en hann náði aldrei að spila fyrir félagið vegna meiðsla sem héldu honum frá fótboltavellinum í næstum því þrjú ár.
Það breytir því ekki að tyrkneskir fjölmiðlar fylgjast enn með íslenska landsliðsframherjanum og fréttasíðan CNN í Tyrklandi, cnnturk.com, segir meðal annars frá samningi Kolbeins í Svíþjóð.
Kolbeinn Sigthorsson 3 yıl sonra ortaya çıktı https://t.co/ZJONpEzxeNpic.twitter.com/uojBUiz6U3
— CNN TÜRK Spor (@CNNTURKSpor) April 2, 2019
Íslendingavaktin vakti athygli á þessum áhuga á málum Kolbeins í Tyrklandi.
Í fréttinni hjá CNNTurk kemur líka fram að Kolbeinn muni bara fá borgað fyrir mörkin sem hann skorar fyrir AIK.
Samkvæmt heimildum CNN í Tyrklandi þá ætlar AIK að borga Kolbeini fimm þúsund evrur fyrir hvert mark sem hann skorar.
Fimm þúsund evrur eru 680 þúsund íslenskar krónur. Kolbeinn mun síðan einnig frá árangurstengdar bónusgreiðslur eftir gengi liðsins í sænsku deildinni.
Kolbeinn hefur skorað mörk nánast hvar sem hann hefur komið, fyrir utan kannski í franska boltanum, en vandamálið fyrir hann hefur verið að halda sér heilum.
Kolbeinn er heldur ekki alveg á flæðiskeri staddur þrátt fyrir að vera ekki með „föst“ laun hjá AIK því samkvæmt fréttum frá Frakklandi þá fékk hann á bilinu 1,7 til 2 milljónir evra vegna starfslokasamnings við Nantes. Það eru 230 til 270 milljónir íslenskra króna.