Innlent

Ítrekað gefið tækifæri til að láta af dólgslátum en lét sér ekki segjast

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn hafði uppi dólgslætin á hóteli í miðbænum í gærkvöldi.
Maðurinn hafði uppi dólgslætin á hóteli í miðbænum í gærkvöldi. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var á tíunda tímanum í gærkvöldi kölluð út vegna ölvaðs manns sem „var til trafala“ á hóteli í miðbænum, að því er segir í dagbók lögreglu. Lögregla gaf manninum ítrekað tækifæri til að láta af dólgslátunum og koma sér í burtu en hann lét sér ekki segjast. Maðurinn var að endingu vistaður í fangageymslu.

Um klukkan tíu var lögregla kölluð á vettvang heimilisofbeldis í austurborginni. Þar var ætlaður gerandi handtekinn í þágu rannsóknar málsins auk þess sem lögregla kallaði til Barnarverndarnefnd og starfsmann félagsþjónustu, þolanda og börnum til halds og trausts.

Rétt fyrir klukkan ellefu réðst svo ölvaður maður á starfsmann vínveitingahúss í Hafnarfirði. Maðurinn hafði verið gestur staðarins og brást ókvæða við afskiptum starfsmannsins. Lögregla handtók manninn á vettvangi og var í kjölfarið ákveðið að hann skyldi vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Hann verður yfirheyrður með morgninum, að því er segir í dagbók lögreglu.

Stuttu fyrir miðnætti var tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur í Norðlingaholti. Engin slys urðu á fólki.

Laust upp úr miðnætti féll svo ungur maður yfirlið á veitingastað í miðborginni. Lögregla fór ásamt sjúkraflutningamönnum á vettvang manninum til aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×