Erlent

Trump hættir ekki stuðningi við Sáda

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Ro Khanna, sem lagði ályktunina fram í fulltrúadeildinni sagði hana hafa verið studda af báðum þingmönnum flokksins og henni hefði verið ætlað að hjálpa til við að binda enda á eitt versta mannúðarástand heimsins.
Ro Khanna, sem lagði ályktunina fram í fulltrúadeildinni sagði hana hafa verið studda af báðum þingmönnum flokksins og henni hefði verið ætlað að hjálpa til við að binda enda á eitt versta mannúðarástand heimsins. AP/Hani Mohammed
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur beitt neitunarvaldi sínu gegn þingsályktun sem samþykkt hafði verið í báðum deildum þingsins og var ætlað að binda enda á stuðning Bandaríkjamanna við Sádi-Arabíu í stríðinu gegn uppreisnarmönnum Húta í Jemen. Forsetinn segir ályktunina ónauðsynlega og hættulega en þetta er aðeins í annað sinn sem Trump beitir neitunarvaldi sínu frá því hann tók við embætti.

Andstaða við stríðið í Jemen og framferði Sáda í því jókst á Bandaríkjaþingi í fyrra eftir að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur í sendiráði Sáda í Tyrklandi.

Allir þingmenn Demókrataflokksins og þó nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins í báðum deildum Bandaríkjaþings greiddu atkvæði með ályktuninni.



Þegar Trump beitti neitunarvaldi sínu sagði hann enga bandaríska hermenn vera í Jemen sem komið að átökum Sáda og Húta. Ríkisstjórn hans hefur haldið því fram að stuðningur Bandaríkjanna við Sáda í Jemen sé mikilvægur liður í því að sporna gegn áhrifum Íran á svæðinu.

Forsetinn vísaði til þess að hann væri að vinna í því að kalla bandaríska hermenn heim frá bæði Afganistan og Sýrlandi. Betra væri að þingið hjálpaði til við það en að samþykkja þessa „óþörfu og hættulegu“ tillögu.

Ro Khanna, þingkona Demókrataflokksins, sem lagði ályktunina fram í fulltrúadeildinni sagði hana hafa verið studda af báðum þingmönnum flokksins og henni hefði verið ætlað að hjálpa til við að binda enda á eitt versta mannúðarástand heimsins. Með henni hefði þingið líka mögulega getað endurheimt vald þingsins til að lýsa yfir stríði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×