Drónaflug við Gatwick-flugvöll, sem olli mikilli röskun á flugsamgöngum í desember síðastliðnum, er talið á ábyrgð „innanbúðarmanns“. Þetta kom fram í máli Chris Woodroofe, framkvæmdastjóra á flugvellinum, í viðtali við breska ríkisútvarpið.
Woodroofe sagði ljóst að þeir sem flugu drónunum hafi haft yfirsýn yfir starfsemi flugvallarins. Annað hvort hafi þeir séð það sem átti sér stað á flugbrautunum eða hlerað samskipti flugvallarstarfsmanna.
Þá hafi þeir sem báru ábyrgð á „árásinni“ valið dróna sem komst fram hjá sérstöku drónaeftirlitskerfi sem flugvöllurinn var að prufukeyra umrædda daga í desember.
Gatwick-flugvelli var lokað í 33 klukkustundir skömmu fyrir jól vegna drónanna, sem flogið var ítrekað yfir flugvöllinn, en yfir þúsund flugferðum var frestað umrædda daga.
Enginn er grunaður um aðild að málinu og býst lögregla við því að rannsókn standi yfir í nokkra mánuði í viðbót.

