Erlent

Rauði krossinn leitar upplýsinga um starfsmenn í gíslingu

Sylvía Hall skrifar
Louisa Akavi hefur starfað fyrir Rauða krossinn í mörg ár. Hún var á meðal þeirra starfsmanna sem urðu fyrir árás í Tsétséníu árið 1996.
Louisa Akavi hefur starfað fyrir Rauða krossinn í mörg ár. Hún var á meðal þeirra starfsmanna sem urðu fyrir árás í Tsétséníu árið 1996. Vísir/Getty
Rauði krossinn leitar nú upplýsinga um þrjá starfsmenn sem var rænt í Sýrlandi fyrir rúmlega fimm árum síðan. Vísbendingar hafa borist um að að minnsta kosti einn gíslanna hafi verið á lífi undir lok síðasta árs. BBC greinir frá. 

Um er að ræða þau Louisa AkaviAlaa Rajab og Nabil Bakdounes sem störfuðu fyrir samtökin í Sýrlandi. Þau hafa verið í haldi íslamska ríkisins síðan þeim var rænt á leið til Idlib-héraðsins í norðvestur Sýrlandi. 

Í yfirlýsingu frá Rauða krossinum segir að vísbendingar hafi borist um að Akavi hafi verið á lífi undir lok ársins 2018 en ekkert er vitað um hina tvo. 

Verðlaunaður hjúkrunarfræðingur með áratuga reynslu

Akavi, sem er nýsjálenskur ríkisborgari og hjúkrunarfræðingur, er 62 ára gömul og hefur farið sautján sinnum á vettvang fyrir hönd Rauða krossins til þess að veita aðstoð.

Hún hefur meðal annars starfað í Bosníu, Sómalíu og Afganistan fyrir samtökin og komst lífs af í árás sem gerð var á skýli samtakanna í Tsétséníu árið 1996 þar sem sex starfsmenn létu lífið. Hún hlaut Florence Nightingale viðurkenninguna árið 1999 fyrir hjúkrunarstörf sín. 



Rajab og Bakdounes eru báðir sýrlenskir ríkisborgarar og störfuðu sem bílstjórar fyrir mannúðarsamtök á svæðinu. 

Dominik Stillhart, aðgerðarstjóri hjá Alþjóðanefnd Rauða krossins biðlaði til þeirra sem búa yfir einhverjum upplýsingum um afdrif starfsmannanna að gefa sig fram. Þá fara þeir fram á að starfsmönnunum verði sleppt tafarlaust séu þeir enn í haldi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×