Hertogahjónin af Sussex, Harry Bretaprins og Meghan Markle, hyggjast halda fæðingu fyrsta barns síns, sem væntanlegt er í heiminn á næstunni, út af fyrir sig fyrst um sinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Buckingham-höll. Heimsbyggðin þarf því að bíða lengur eftir því að berja hið konunglega barn augum en vant er.
Í tilkynningu segir að hertogahjónin séu afar þakklát öllum sem hafa sent þeim heillaóskir á meðgöngunni. Þau hafi hins vegar tekið þá ákvörðun að uppljóstra engu um fæðingu barnsins fyrr en þeim hafi gefist tækifæri til að fagna í einrúmi.
Fjölmiðlar í Bretlandi virðast túlka fréttirnar sem staðfestingu þess efnis að erfinginn verði ekki „frumsýndur“ á fæðingardaginn ásamt foreldrum sínum, líkt og gert hefur verið í tilfelli allra barna hertogahjónanna af Cambridge. Þannig hafa Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja stillt sér upp á sjúkrahúströppunum í Lundúnum aðeins nokkrum klukkustundum eftir fæðingu barna sinna þriggja, þeirra Georgs, Karlottu og Lúðvíks.
Mikil leynd hefur hvílt yfir meðgöngu og fæðingu barns þeirra Meghan og Harry hingað til. Ekkert hefur verið gefið út um fæðingardaginn þó að ljóst þyki að Meghan muni eiga innan fárra vikna, að öllum líkindum á öðrum spítala en Katrín, svilkona hennar, hefur fætt sín börn.

