Fundi samflots iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara lauk á fimmta tímanum í dag.
Fundað verður áfram klukkan tíu í fyrramálið að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara. Hún segir þokkalegan gang í viðræðunum og nú haldi samninganefndir væntanlega áfram vinnu í kvöld, hvor í sínu lagi, áður en fundur hefst að nýju í fyrramálið.
Í samtali við fréttastofu vildi Halldór Benjamín Þorbergsson lítið gefa upp um árangur fundarins í dag. Ekki hefur náðst í Kristján Þórð Snæbjarnarson, formann Rafiðnaðarsambandsins og talsmann iðnaðarmanna í kjaraviðræðum, að svo stöddu.

