Þingsályktunartillaga um þriðja orkupakkann er komin til nefnda á Alþingi og nú er beðið umsagna þar áður en atkvæðagreiðsla um málið fer fram. Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra segir dagsetningu á atvkæðagreiðsluna ekki komna en er bjartsýnn á að málið verði samþykkt.
„Ég er nú bjartsýnn á að það sé góður stuðningur við þetta mál og hvað varðar gagnrýni þá held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál og önnur tengd því að þegar fólk fær að sjá staðreyndir málsins þá held ég að ég geti fullyrt að alla jafna sé mun líklegra að það styðji málið í kjölfar þess en það hefur verið mjög mikið af rangfærslum,“ segir Guðlaugur Þór.
Þær helstu snúist um framsal og sæstreng.
„Ég myndi nefna það að við værum eitthvað að afsala okkur forræði yfir auðlindunum. Því fer víðsfjarri. Að við þurfum að leggja sæstreng, því fer víðsfjarri,“ segir ráðherrann.
Guðlaugur segir erfitt að spá fyrir um hvað gerist ef málið hlýtur ekki brautargengi á Alþingi.
„Ég á nú ekki von á því að það gerist. Ef það gerðist þá værum við fara í einhverja ferð sem við vitum ekkert hvar myndi enda eða hvaða afleiðingar hefði í för með sér. Það er nú alla jafna ekki gott að fara í slíkar ferðir,“ segir hann.