Valgerður Sigurðardóttir, skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að Reykjavíkurborg þurfi að ráðast í naflaskoðun til að stöðva fólksflóttann.
„Þetta er ástand sem Reykjavíkurborg þarf að bregðast við. Það þarf að tala við fagfólkið, leikskólakennarana, um hvað sé best að gera,“ segir Valgerður. „Við höfum misst 22,25 menntaða leikskólakennara á hverju ári síðustu fjögur ár. Það er fólksflótti úr stéttinni, það er virkilega sláandi að sjá fagfólki fækka svona mikið á svona stuttum tíma. Stöðugildunum er ekki að fækka, svo er öðru starfsfólki með uppeldismenntun ekki að fjölga til að vega upp á móti.“

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir tölurnar ekki koma á óvart. „Þetta vandamál einskorðast alls ekki bara við borgina. Að fjölga leikskólakennurum er stærsta áskorun sveitarfélaganna. Það mun ekki einungis bæta gæði náms í leikskólum heldur einnig bæta starfsaðstæður leikskólakennara því einn af álagsþáttunum í starfinu er tíð starfsmannavelta,“ segir Haraldur. „Þrátt fyrir fjölgun í leikskólakennaranámi er nýliðun langt frá því að vera nægileg.“
Það þurfi að gera laun samkeppnishæf við laun annarra sérfræðinga, fækka börnum á hvern starfsmann og færa starfsumhverfið nær því sem þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnutíma og starfstíma. Segir hann það verða verkefni næstu kjarasamninga sem losna í lok júní.