Flokkur Nursultan Nazarbajev, fyrrverandi forseta Kasakstans, hefur tilnefnt Kasym-Zjomart Tokajev, sem tók við embætti forseta til bráðabirgða í kjölfar afsagnar Nazarbajev, sem næsti forseti landsins.
Greint var frá því á blaðamannafundi í morgun að flokkurinn, Nur Otan, hafi tilnefnt Tokajev að beiðni Nazarbajev.
Hinn 78 ára Nazarbajev sagði óvænt af sér embætti forseta í mars síðastliðinn eftir að hafa stýrt landinu í nærri þrjá áratugi. Hann gegnir þó áfram embætti formanns Nur Otan.
Tokajev, sem í krafti stöðu sinnar sem forseti öldungadeildar þingsins, var gerður að forseta til bráðabirgða eftir afsögn Nazarbajev. Dóttir Nazarbajev, Dariga Nazarbajeva, var þá skipuð nýr forseti þingsins.
Forsetakosningar fara fram í Kasakstan þann 9. júní og bendir nú allt til að Tokajev verði næsti forseti landsins, en Nur Otan er stærsti flokkur landsins.

