Erlent

Leiðtogar víða um heim fordæma árásirnar í Sri Lanka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikil sorg ríkir í Srí Lanka í kjölfar árásarinnar.
Mikil sorg ríkir í Srí Lanka í kjölfar árásarinnar. Mohammad Sajjad/AP
Ekki hefur staðið á viðbrögðum heimsbyggðarinnar við sprengjuárásum sem gerðar voru á kirkjur og hótel á Srí Lanka í dag. Stjórnmálafólk og þjóðhöfðingjar um heim allan hefur fordæmt árásirnar og sent íbúum landsins samúðar- og stuðningskveðjur, auk þess sem sumir hafa boðið fram hjálp sína í kjölfar árásanna. Minnst 207 eru staðfest látnir vegna árásanna en líklegt verður að teljast að sú tala komi til með að hækka þar sem á fimmta hundrað hafa særst.

Leiðtogar nágrannaríkja Srí Lanka hafa lýst yfir stuðningi sínum við Srí Lanka en Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fordæmdi árásirnar harðlega í tísti fyrr í dag. Hann sagði engan stað vera fyrir slíkan skrælingjahátt í þessum hluta heimsins og að Indland stæði þétt við bakið á nágrannaþjóð sinni.





Þá fordæmdi Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan, árásirnar og sendi Srí Lanka sínar dýpstu samúðarkveðjur.



Samúðarkveðjur úr öllum áttum

Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti fyrr í dag um árásirnar þar sem hann vottaði íbúum landsins „innilega samúð“ og sagði Bandaríkin reiðubúin til aðstoðar.





Forveri Trump í starfi, Barack Obama, tísti einnig um árásirnar, og kallaði þær „árás á mannkynið.“

„Á degi tileinkuðum ást, frelsun og endurnýjun [Páskadag], biðjum við fyrir fórnarlömbunum o stöndum með íbúum Srí Lanka.“



„Við verðum að vinna bug á þessu hatri með samstöðu, ást og virðingu“

Leiðtogar tveggja stærstu stjórnmálaflokka Bretlands segja báðir að sér bjóði við árásunum. Theresa May, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, segir árásirnar „sannarlega ógeðfelldar“ og sagði mikilvægt að fólk stæði saman til þess að tryggt væri að enginn þyrfti að iðka trú sína í skugga ótta.





Þá fordæmdi Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokks Bretlands, árásirnar í tísti.

„Ég stend með fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra, íbúum Srí Lanka og kristnu fólki víðs vegar um heiminn. Við verðum að vinna bug á þessu hatri með samstöðu, ást og virðingu.“





Forsætisráðherra Finnlands, Juha Sipilä, segist á Twitter hryggur yfir árásunum. Hann muni fylgjast vel með framvindu mála

„Hugur minn er hjá hinum særðu og fjölskyldum og vinum fórnarlamba. Við fordæmum þessi huglausu voðaverk harðlega.“





Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tók í sama streng og starfsbróðir sinn í Finnlandi og fordæmdi árásirnar.





Meðal annarra sem fordæmt hafa árásirnar eru Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker forseti framkvæmdastjórar sambandsins, og António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.







 

 


Tengdar fréttir

„Við sjáum að heimamenn eru niðurbrotnir“

Parið Margrét Lilja Stefánsdóttir og Sigurjón Þór Guðmundsson eru stödd í fjallaþorpinu Nuwara Eliya í Srí Lanka, en þau hafa verið á ferðalagi um landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×