Innlent

„Veldur hver á heldur – við þokumst nær samningi“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Það kvað við nýjan og eilítið bjartari tón hjá iðnaðarmönnum í dag því um helgina höfðu samninganefndir samflots iðnaðarmanna teiknað upp verkfallsaðgerðir færi það svo að kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins bæru ekki árangur.
Það kvað við nýjan og eilítið bjartari tón hjá iðnaðarmönnum í dag því um helgina höfðu samninganefndir samflots iðnaðarmanna teiknað upp verkfallsaðgerðir færi það svo að kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins bæru ekki árangur. Vísir/vilhelm
„Við erum allavega komin á aðeins annan stað. Það er það sem er jákvætt í þessu.“

Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna, í samtali við fréttastofu þegar hann var spurður um hvort einhver árangur hefði náðst á fundi gærdagsins.

Það kvað við nýjan og eilítið bjartari tón hjá iðnaðarmönnum í dag því um helgina höfðu samninganefndir samflots iðnaðarmanna teiknað upp verkfallsaðgerðir færi það svo að kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins bæru ekki árangur. Látið var að því liggja að fundurinn sem fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær myndi ráða úrslitum varðandi hugsanlegar verkfallsaðgerðir.

Kristján vildi þó ekki taka of djúpt í árinni og kvaðst hóflega bjartsýnn gagnvart fundinum með viðsemjendum sínum sem hefst klukkan 11.00 í dag og gæti staðið til 17.00 líkt og í gær.

„Við, auðvitað, erum að pressa á að þetta gangi hratt fyrir sig hjá okkur, hratt og vel, en það er ekki tímabært að segja til um nein tímamörk,“ segir Kristján.

Aðspurður hvort eitthvað afdrifaríkt hafi gerst af hálfu SA á fundinum í gær svarar Kristján: „Þetta hefur mjakast áfram“.

„Þokumst nær samningi“

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vildi gefa of mikið upp í samtali við fréttastofu en hann staðfesti þó að hann myndi vissulega mæta til fundar klukkan 11.

Má skilja þetta sem svo að þið hafið að einhverju leyti komið til móts við kröfur iðnaðarmanna?

„Við vinnum áfram að verkefninu. Ég get staðfest það. Veldur hver á heldur. Við þokumst nær samningi.“


Tengdar fréttir

Iðnaðarmenn bíða viðbragða frá SA

Iðnaðarmenn eru tilbúnir með áætlun að verkfallsaðgerðum ef kjaraviðræður bera ekki árangur. Það kann að skýrast í dag hvort iðnaðarmenn slíti viðræðum við Samtök atvinnulífsins en staðan er brothætt segir talsmaður samflots iðnaðarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×