Í þættinum fer Ragga yfir allt á milli himins og jarðar þegar kemur að heilsu og barst talið að þeim ótal mörgu kúrum sem fólk virðist heillast af. Kúrar á borð við keto og 16/8.
„Það sem svona megrunarkúrar og matarplön gera er að þau veita okkur ákveðin ramma og það er það sem fólk sækist í,“ segir Ragnhildur.
„Fólk er orðið rosalega ruglað í því hvað má ég borða og hvað má ég ekki borða. Ef ég fæ eitthvað plan sem einhver gúrú út í heimi er búinn að gera og fylgi því þá fæ ég svona geislabaugsáhrif og þar líður mér vel innan rammans. Það sem gerist er að við förum að streitast á móti, það sem við köllum á sálfræðimáli unglinginn. Þú ferð að segja við þig, æji þú mátt þetta og þá förum við ósjálfrátt að sveigja út frá reglunum. Ef við erum að fylgja keto og svo er einhver sem á afmæli og það er kaka á borðinu og fokk it kemur í heimsókn, við þekkjum hann. Þá ert þú ekki lengur að fylgja ketoplaninu. Þú ert búinn að fá þér kolvetni og sykur og allt saman og þá er allt ónýtt.“
Sálrænt mjög erfitt
Ragga segir að þetta sé hættan þegar maður er að fylgja fyrirfram ákveðnu plani sem einhver annar er búinn að semja.Í þættinum ræðir Ragnhildur einnig um það af hverju hún fór að einbeita sér að heilsubransanum, pistla hennar sem hafa vakið mikla athygli, vandamál heimsbyggðarinnar þegar kemur að kyrrsetu, að maður geti aldrei gert mistök og bara lært og þau námskeið sem hún heldur úti.