Innlent

Hross á ferð í Ártúnsbrekku handsömuð við N1

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hrossin innan um bílana nú í morgunsárið. Ferðalag þeirra gekk áfallalaust fyrir sig.
Hrossin innan um bílana nú í morgunsárið. Ferðalag þeirra gekk áfallalaust fyrir sig. Skjáskot/lögregla
Tvö hross á ferð um Árbæinn ollu töluverðum umferðartöfum nú í morgunsárið. Lögreglu barst tilkynning um hestana seint á sjöunda tímanum en þeir voru gripnir um áttaleytið. Mbl greindi fyrst frá málinu í morgun.

Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að fyrst hafi sést til hrossanna uppi í Árbæ en þau hafi farið hratt yfir og voru að lokum handsömuð við N1 í Ártúnsbrekku.

Allt hafi endað vel og án óhappa en eðlilega hafi skapast nokkur vandræði í umferðinni á svæðinu. Þá hafi hrossin sjálfsagt orðið hrædd í kringum bílana.

Valgarður veit ekki hvaðan hrossin sluppu en þau eru nú í umsjá hestamanns á vegum Reykjavíkurborgar. Hann mun koma þeim í skjól og aðstoða við að hafa uppi á eiganda þeirra.

Hér að neðan má sjá myndband af ferðalagi hrossanna í Ártúnsbrekku sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti á Facebook-síðu sinni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×