Innlent

Vongóður um að vinnu við nýja kjarasamninga ljúki hjá iðnaðarmönnum í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifa
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna. Vísir/Vilhelm
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og talsmaður samflots iðnaðarmanna, segist vongóður um að vinnu við nýja kjarasamninga ljúki í dag. Fundur hófst að nýju hjá ríkissáttasemjara klukkan tíu í morgun.

Samninganefndir samflots iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins funduðu í um þrettán klukkutíma á þriðjudaginn og í lok þess fundar var Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, vongóður um að samningar væru á næsta leiti. Hlé var gert á fundarhöldum 1. maí en samningsaðilar settust svo aftur við samningaborðið klukkan tíu í morgun.

„Núna erum við að halda áfram með textavinnu í samningunum hjá okkur. Við stefnum að því að reyna að klára eins mikla texta vinnu og mögulegt er. Vonandi lýkur því í dag.  Það getur auðvitað alltaf eitthvað komið upp ófyrirséð. Það tekur töluverðan tíma að vinna með textann,“ segir Kristján.

Hann segir erfitt að segja til um það nákvæmlega hversu langan tíma það muni taka og hvort gengið verði frá undirritun í dag.

„Þegar þú ert að fara í textavinnuna þá getur alltaf eitthvað komið upp sem að getur ruglað vinnuna. Það á eftir að klára smávægileg atriði sem við þurfum að fara í gegnum. Þannig að það getur alltaf eitthvað gerst,“ segir hann en er þó vongóður.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×