Erlent

Kalla starfsmenn heim frá Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna var í Írak í síðustu viku.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna var í Írak í síðustu viku. AP/Mandel Ngan
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa skipað flestum starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins í Baghdad og Ebril að yfirgefa Írak hið snarasta. Einungis hinir mikilvægustu starfsmenn verða ekki kallaðir heim. Ríkisstjórn Donald Trump lýsti því yfir í síðustu viku að bráð ógn frá Íran og sveitum sem studdar eru af Íran hefði greinst í Írak og nærliggjandi svæðum.

Á sunnudaginn var Bandaríkjamönnum ráðlagt að ferðast ekki til Írak.

Í yfirlýsingu sendiráðs Bandaríkjanna í Írak kemur ekki fram af hverju verið sé að grípa til þessara ráðstafana en fólki er þó ráðlagt að forðast skrifstofur og stofnanir Bandaríkjanna í landinu og er tekið fram að Bandaríkin hafi takmarkaða möguleika til að bregðast við neyðarástandi í Írak.

Spennan á milli Bandaríkjanna og Íran hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum dögum. Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa sakað Írana um árásir gegn olíuframleiðslu í landinu og bandaríski herinn hefur verið á varðbergi gagnvart árásum frá vopnuðum sveitum sjíta í Írak sem yfirvöld Íran styðja.



Því hafa Bandaríkin sent flota á svæðið og fjölgað sprengjuflugvélum.

Breskur talsmaður bandalagsins gegn Íslamska ríkinu sagði þó í gær að engar upplýsingar lægju fyrir um aukna ógn frá þessum sveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×