Tökum á næstu James Bond-mynd hefur verið frestað um óákveðinn tíma eftir að aðalleikarinn meiddist við tökur í síðustu viku. Er Craig sagður hafa hrasað þegar hann var við tökur á atriði á Jamaíka þar sem hann þurfti að spretta nokkuð hratt úr spori.
Var um að ræða síðustu senuna sem taka átti upp á Jamaíka en The Sun segir frá því að tökum sem áttu að hefjast í Pinewood-myndverinu í Lundúnum í lok vikunnar hafi verið frestað.
Er Craig sagður hafa kvartað sáran undan verk í ökkla eftir óhappið en flogið var með hann til Bandaríkjanna þar sem meiðslin voru skoðuð með aðstoð röntgenmyndavéla.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Craig slasast við tökur á Bond-mynd. Hann missti tvær tennur við tökur á Casino Royale, slasaðist á fingri og reif axlarvöðva við tökur á Quantum of Solace og meiddist á hné við tökur á bardagaatriði fyrir myndina Spectre.
Daniel Craig slasaðist við tökur á næstu Bond-mynd
