Erlent

Segja bandarískar hersveitir enga ógn

Sveinn Arnarsson skrifar
Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. Vísir/getty
Hershöfðingi í íranska Byltingarvarðliðinu segir að vera bandarískra hersveita á Persaflóa sé aðeins sálfræðihernaður og hluti áætlunar til að hræða stjórnvöld í Teheran. Breski miðilinn The Guardian greinir frá því að hershöfðinginn Hossein Salami hafi sagt írönskum þingmönnum þetta á lokuðum fundi.

Þá er haft eftir Salami að hann telji að Bandaríkin búi ekki yfir nægilegum herstyrk til að fara í stríð við Íran.

Amirali Hajizadeh, yfirmaður í flugher Byltingarvarðliðsins, segir að bandaríska flugmóðurskipið USS Abraham Lincoln, sem er með sex þúsund hermenn og rúmlega 40 sprengjuþotur, sé núna tækifæri en ekki ógn eins og áður. Ef Bandaríkjamenn myndu gera sig líklega yrðu slíku svarað með árás.

Aukin spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna frá því að Íranar ákváðu í síðustu viku að draga sig að hluta til út úr alþjóðlegu samkomulagi um kjarnorkuvopn landsins frá 2015. Donald Trump ákvað á síðasta ári að draga Bandaríkin einhliða út úr samkomulaginu og hefja refsiaðgerðir gangvart Íran að nýju.

Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að landið standi nú frammi fyrir alþjóðlegum þvingunaraðgerðum af áður óþekktri stærðargráðu. Forsetinn hefur kallað eftir samstöðu innanlands til að mæta þrýstingi alþjóðsamfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×