Erlent

Réðust á mosku eftir deilur á Facebook

Sylvía Hall skrifar
Þrjár moskur voru grýttar í Chilaw í dag.
Þrjár moskur voru grýttar í Chilaw í dag. Vísir/Getty
Útgöngubann hefur verið sett á í bænum Chilaw í Sri Lanka eftir að tugir fólks köstuðu steinum á moskur og verslanir í eigu múslima í bænum í morgun. Uppruni málsins er rakin til deilna á Facebook. Reuters greinir frá.

Þrjár vikur eru liðnar frá hryðjuverkaárás í landinu þar sem árásarmenn sprengdu sprengjur á fjórum hótelum og í þremur kirkjum á Páskadag en yfir 290 létu lífið í árásunum. Múslimar hafa síðan þá kvartað undan hótunum í sinn garð og óttast um öryggi sitt í landinu.

Í morgun var svo ráðist á staði þar sem múslimar eru í miklum meirihluta og var einn maður beittur grófu ofbeldi. Þrjár moskur voru grýttar og er ein þeirra illa farin eftir árásina.

Útgöngubannið heldur gildi til morguns, nánar tiltekið til klukkan sex að morgni til að staðartíma. Hyggst lögreglan nýta tímann til þess að ná tökum á ástandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×