Dómari á Bretlandi úrskurðaði í dag að Boris Johnson þurfi að koma fyrir dóm vegna ásakana um að hann hafi logið að almenningi um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Johnson er talinn líklegastur til að taka við að Theresu May sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins.
Málið tengist þrennum ummælum sem Johnson lét falla fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sumarið 2016 um útgönguna. Johnson var einn helsti talsmaður þess að Bretar segðu skilið Evrópusambandið.
Þar á meðal eru fullyrðingar Johnson um að Evrópusambandsaðildin kostaði Breta 350 milljónir punda á viku, jafnvirði rúmra 55 milljarða íslenskra króna. Stuðningsmenn Brexit slógu þeirri upphæð meðal annars upp í auglýsingaefni sínu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Dómari í einkamáli sem var höfðað gegn Johnson tók ekki afstöðu til sannleiksgildi fullyrðingarinnar en úrskurðaði að hann þyrfti að koma fyrir dóminn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Stefnendurnir halda því fram að Johnson hafi brotið af sér í embætti með ummælunum.
Johnson var borgarstjóri í London þar til mánuði fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Mánuði eftir hana tók hann við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn May. Hann hefur ekki tjáð sig um úrskurðinn. Lögmenn hans hafa haldið því fram að stefnan gegn honum sé pólitísks eðlis.
May ætlar að segja af sér 7. júní. Johnson er talinn sigurstranglegastur í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins þar sem rúmlega tíu eru í framboði.

