Þetta sagði Castro í samtali við Buzzfeed News þegar hann var inntur eftir skoðun sinni á þeirri háværu umræðu sem nú fer fram innan Demókrataflokksins en margir innan flokksins telja það mikilvægt að flokkurinn velji frambjóðanda sem höfði til fólks utan flokksins en ekki einungis til flokkshollra demókrata.
„Ef sagan kennir okkur eitthvað, sérstaklega á þessum tímum, þá er það að þeir frambjóðendur Demókrata sem við teljum hafa mestan kjörþokka eru ekki endilega sigurstranglegastir,“ sagði Castro en margir stuðningsmenn Demókrata hafa lýst því yfir í skoðanakönnunum að þeir muni styðja og kjósa þann frambjóðanda sem er líklegastur til þess að sigra Trump í forsetakosningunum árið 2020.

Á stuðningsmannasamkomu Biden í síðustu viku sögðust nokkrir myndu styðja margar þeirra kvenna og frambjóðenda af erlendum uppruna sem nú bjóða sig fram ef staðan væri önnur, en nú væri forgangsatriði að velja þann sem væri líklegastur til þess að koma núverandi forseta frá völdum.
„Það er ógnvænlegt að fylgjast með því sem er að eiga sér stað í landinu okkar núna. Ég vil að mitt atkvæði skipti máli sem kona af erlendum uppruna,“ sagði Angie Johnson, einn stuðningsmanna Biden á samkomunni. Hún segir það einfaldlega vera það rökrétta í stöðunni að velja hvítan karlmann til þess að keppast við Trump um embætti forseta Bandaríkjanna.

Sannfærður um að hann geti unnið fylkin sem demókratar töpuðu síðast
Castro hefur ekki hlotið náð fyrir augum kjósenda en hann mælist með um það bil 1% stuðning í skoðanakönnunum. Þrátt fyrir það telur hann sig geta unnið til baka fylki á borð við Michigan, Wisconsin og Pennsylvaniu með því að höfða til fjölbreyttari kjósendahóps líkt og Barack Obama gerði í kosningunum 2008. Þá segist hann vera besti valmöguleikinn til þess að sigra í Arizona, Flórdía og Texas.„Ef kjósendur eru að leita að frambjóðanda sem getur ekki einungis unnið í miðríkjunum heldur einnig í suðvesturríkjunum, þá er ég sá frambjóðandi,“ sagði Castro.
Castro segist sannfærður um að hann muni höfða til stærri kjósendahóps en aðrir frambjóðendur og verða þess valdandi að innflytjendur sem ekki hafa nýtt kosningarétt sinn til þessa muni skrá sig á kjörskrá.