Lewis Hamilton leiðir heimsmeistaramót ökumanna með sjö stiga forskot á liðsfélaga sinn, Valtteri Bottas.
Mercedes hefur endað í fyrsta og öðru sæti í öllum keppnum ársins sem er met, ekkert lið hefur byrjað tímabil svona vel.
„Tímabilið hefur vissulega byrjað vel hjá okkur, en við verðum að muna að Mónakó er mjög sérstök braut,“ hafði Valtteri Bottas að segja á blaðamannafundi á miðvikudag.
Finninn bætti við að Mercedes liðið hefur yfirleitt ekki verið með hraðasta bílinn á götum Mónakó síðastliðin ár.

Red Bull liðið gæti komið sterkt inn í furstadæminu. Max Verstappen, aðalökumaður liðsins, hefur reglulega verið hraðari en Ferrari ökumennirnir í ár.
Eftir að liðið skipti yfir í Honda vélar fyrir tímabilið hefur hraðinn alltaf verið að aukast, ekki má gleyma því að Daniel Ricciardo vann Mónakó kappaksturinn í fyrra fyrir Red Bull.
Það er ætíð mikil spenna fyrir þessum sögufræga kappakstri en oftar en ekki verða áhorfendur fyrir vonbrigðum. Formúlu bílarnir eru alltaf að verða stærri og því er nánast ómögulegt að taka framúr á þröngum götum Mónakó.
Tímatökurnar á laugardaginn gætu því haft meira að segja en kappaksturinn sjálfur á sunnudaginn. Hægt verður að fylgjast með alla helgina í beinni á Stöð 2 Sport.