Maðurinn sem sakaður er um að hafa orðið 51 að bana í árás á bænahús múslima í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk. Frá þessu greindi nýsjálenska lögreglan í yfirlýsingu í morgun.
Árásarmaðurinn hefur þegar verið ákærður fyrir morð auk þess sem hann sætir 40 ákærum fyrir tilraun til manndráps. Hann verður næst leiddur fyrir dómara í júní.
Töluvert hefur verið tekist á um það í Nýja-Sjálandi hvort rétt væri að ákæra manninn fyrir hryðjuverk. Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins er þess getið að efasemdafólk telji að slík ákæra muni lengja réttarhöldin auk þess sem það gæti gefið manninum svigrúm til að opinbera öfgafullar skoðanir sínar.
Í aðdraganda árásarinnar gaf árásarmaðurinn það út að hann tryði á yfirburði hvíta kynstofnsins, en sem fyrr segir réðst maðurinn á moskur meðan bænahald stóð yfir.
Árásin, sem framin var þann 15. mars, er mannskæðasta skotárás í sögu Nýja-Sjálands. Hún varð hvatinn að samþykkt nýsjálenskra stjórnmálamanna á banni við hálfsjálfvirkum hríðskotarifflum þar í landi.
Árásarmaðurinn í Christchurch ákærður fyrir hryðjuverk

Tengdar fréttir

Yfirgnæfandi meirihluti með hertri vopnalöggjöf
Alls greiddu 119 nýsjálenskir þingmenn atkvæði með frumvarpinu, en einn greiddi atkvæði gegn.

Hryðjuverkamaðurinn í Christchurch dvaldi á Íslandi í tíu daga
Brenton Tarrant var einn á ferð hér á landi.

Breyta Facebook Live vegna árásanna í Christchurch
Facebook hefur gert breytingar á Facebook Live til að reyna að draga úr því að þjónusta fyrirtækisins sé notuð til að "valda skaða eða dreifa hatri“.