Maurizio Sarri hefur sagt forráðamönnum Chelsea að hann vilji yfirgefa félagið í sumar. Þetta segja heimildir Sky á Ítalíu.
Sarri kom til Chelsea síðasta sumar og á sínu fyrsta tímabili kom hann Chelsea í Meistaradeild Evrópu á ný með því að enda í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og svo stýrði hann liðinu til sigurs í Evrópudeildinni.
Undanfarna daga hefur Sarri verið ítrekað orðaður við Ítalíumeistara Juventus en Massimiliano Allegri yfirgaf Juventus á dögunum.
Sarri fundaði með framkvæmdarstjóra Chelsea, Marina Granovskaia, í gær og virðist hafa sagt henni að hann vilji yfirgefa Lundúnir.
Þrátt fyrir að hafa að lokum staðið uppi með nokkuð góðan árangur í lok tímabilsins var Sarri mikið gagnrýndur af stuðningsmönnum félagsins í vetur.
