Erlent

Fyrirtæki gagnrýnt fyrir að borga kvenkyns starfsmönnum fyrir að klæðast pilsum

Andri Eysteinsson skrifar
Auglýsing Tatuprof um kvenleikaátak
Auglýsing Tatuprof um kvenleikaátak Mynd/Tatuprof
„Kvenleika-átak“ rússneska álframleiðandans Tatuprof hefur verið harðlega gagnrýnt ytra, sér í lagi sá hluti sem snýr að því að fá kvenkyns starfsmenn til þess að klæðast pilsum eða stuttum kjólum til vinnu. BBC greinir frá.

Konum sem starfa innan Tatuprof er boðinn 100 rúblu (um 190 krónur) bónus fyrir hvern dag sem þær mæta til vinnu klæddar pilsi eða kjól sem nær ekki meira en fimm sentimetrum ofan við hné. Starfsmennirnir þurfa að senda inn myndir til sönnunar vilji þær fá bónusinn greiddan.

Fyrirtækið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir gamaldags viðhorf í garð kvenna. Talsmaður fyrirtækisins sagði í útvarpsviðtali í Moskvu að átakið bæri ekki vott um kynjamisrétti fyrirtækisins.

„Við vildum gera vinnuna skemmtilegri, 70% starfsfólks okkar eru karlmenn. Svona átök hjálpa okkar við að slaka á og hvílast. Þetta er frábær leið til að hrista hópinn saman. Konurnar sem vinna hjá okkur velja oftast að klæðast síðbuxum, sagði talsmaðurinn í viðtali við Govorit Moskva útvarpsstöðina.

Að sögn Anastasiu Kirillovu innan mannauðsdeildar fyrirtækisins, mun hugmyndin að átakinu, sem standa á yfir út júní, hafa komið frá forstjóra fyrirtækisins, Sergei Rachkov.

„Hann vill að konur á vinnustaðnum haldi í kvenleika sinn, séu ekki með „karla-hárgreiðslur“, klæðist ekki buxum, njóti sín við handavinnu og í að ala upp börn,“ sagði Kirillova í samtali við staðarmiðilinn Business Online.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×