Erlent

Súdanski herinn boðar til skyndikosninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Félagar í vopnaðri sveit sem styður stjórnarherinn á vakt nærri höfuðstöðvum hersins í Khartoum.
Félagar í vopnaðri sveit sem styður stjórnarherinn á vakt nærri höfuðstöðvum hersins í Khartoum. Vísir/EPA
Kosið verður í Súdan innan níu mánaða eftir að yfirmenn hersins sögðust ætla að rifta samkomulagi við stjórnarandstöðu landsins. Herinn hefur verið fordæmdur víða um heim fyrir að beita valdi gegn mótmælendum. Að minnsta kosti þrjátíu mótmælendur eru sagðir hafa fallið.

Herinn hefur farið með völd í Súdan frá því að Omar al-Bashir var hrakinn frá völdum í apríl. Mótmæli hafa verið haldin gegn stjórn hersins í höfuðborginni Khartoum. Samkomulag hafði náðst á milli hersins og mótmælenda um þriggja ára aðlögunartíma þar til borgaraleg ríkisstjórn tæki aftur við.

Á mánudag reyndi herinn aftur á móti að tvístra mótmælendum á torgi fyrir framan höfuðstöðvar hans með ofbeldi. Bandarísk stjórnvöld eru á meðal þeirra sem hafa fordæmt aðfarir hersins og kallað þær „grimmilega árás“.

Abdel Fattah al-Burhan, oddviti herforingjaráðsins sem stýrir landinu, tilkynnti í sjónvarpsávarpi að herinn hefði ákveðið að hætta viðræðum við samtök mótmælenda og að rifta því sem þau höfðu samið um.

Á móti hafa leiðtogar mótmælanna hvatt landsmenn til allsherjarverkfalls og borgaralegrar óhlýðni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Herinn segist harma hvernig hafi farið í átökum við mótmælendur. Aðgerðir hersins hafi beinst að „vandræðaseggjum og smáglæpamönnum“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×