Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um umferðaróhapp í 109 Breiðholti upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi. Ekið hafði verið á umferðarskilti og ökumaður horfinn af vettvangi.
Skömmu síðar tókst lögreglu að hafa uppi á manninum sem var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við handtöku sparkaði maðurinn í lögreglukonu.
Þegar upp á lögreglustöð var komið héldu spörk mannsins áfram en við sýnatöku sparkaði hann tölvu af borði á stöðinni. Maðurinn er því grunaður um akstur undir áhrifum og ofbeldi gegn lögreglu og hefur verið vistaður í fangageymslu lögreglu.
Alls hafði lögreglan afskipti af átta ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Á öðrum tímanum í nótt barst lögreglu svo tilkynning um innbrot í fataverslun í Fossvogi. Búið var að brjóta rúðu í hurð verslunarinnar og lágu glerbrot um alla verslun. Ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.
Þá barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í miðborginni klukkan hálf þrjú í nótt. Árásarþoli er mögulega nefbrotinn. Þegar lögregla kom á vettvang var hinn grunaði á bak og burt. Lögreglan telur sig þó vita hvern um er að ræða og mun ná tali af honum síðar, eftir því sem fram kemur í tilkynningu lögreglunnar til fjölmiðla.
