Selfoss hefur enn ekki fundið þjálfara sem stýrir Íslandsmeisturunum í Olís-deild karla á næstu leiktíð en leitin hefur enn ekki borið árangur.
Guðmundur Hilmarsson á Morgunblaðinu ræðir við Þóri Haraldsson, formann Selfoss, í morgun, en Selfoss fann þjálfara í janúar er Hannes Jón Jónsson samdi við liðið.
Hann átti að taka við skútunni af Patreki Jóhannessyni sem tekur við Skjern í sumar en Hannes Jón fékk svo síðar meir tilboð frá þýska úrvalsdeildarfélaginu, Bietigheim, sem hann sagði já við, með leyfi Selfyssinga.
„Það er lítið að frétta af okkar þjálfaramálum. Það er ekkert komið í hendi enn sem komið. Við höfum lagt áherslu á að finna góðan íslenskan þjálfara enda teljum við að við eigum talsvert mikið af frambærilegum þjálfurum hér á landi,“ sagði Þórir í Morgunblaðinu.
„Við erum ekki búnir að hitta í mark ennþá. Við erum búnir að ræða við ýmsa þjálfara eftir Hannes Jón sveik okkur en það hefur ekki skilað neinu ennþá,“ bætti Þórir við.
„Við höfum haldið það í nokkrar vikur að við værum að klára þessi mál og að landa góðum manni en svo hefur það ekki gengið upp á síðustu metrunum. Stundum virkar Hellisheiðin löng í aðra áttina,“ sagði Þórir.
Íslandsmeistararnir munu taka þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð.

