Charles Leclerc verður á ráspól þegar Austurríkiskappaksturinn verður flautaður á í Formúlu 1 á morgun. Leclerc keyrði hraðast allra í dramatískri tímatöku í dag.
Lewis Hamilton náði öðrum besta tíma dagsins en hann gæti þó dottið aftar í röðina áður en menn verða ræstir af stað á morgun því verið er að rannsaka hegðun hans.
Hamilton á að hafa hindrað Kimi Raikkonen í fyrstu umferð tímatökunnar.
Liðsfélagi Leclerc hjá Ferrari, Sebastian Vettel, lenti í vélarvandræðum í upphafi þriðju umferðar tímatökunnar. Hann náði ekki að klára hring í þriðju umferðinni og byrjar því tíundi á morgun.
Þetta er í annað skipti á árinu sem Leclerc nær ráspól og annar ráspóll hans á ferlinum.
Þriðji í tímatökunni varð Max Verstappen á Red Bull, en Red Bull er á heimavelli í austurríska kappakstrinum.
Stöð 2 Sport sýnir beint frá kappakstrinum á morgun, útsending hefst klukkan 12:50.
Leclerc á ráspól og Hamilton gæti fengið refsingu
