Mercedes hefur verið alls ráðandi það sem af er ári. Liðið hefur unnið allar keppnir ársins, Lewis Hamilton fimm og Valtteri Bottas tvær.
Í þeim keppnum sem Hamilton vann ekki varð Bretinn annar og er hann því með yfirburða forskot í heimsmeistaramótinu, alls 29 stigum á undan liðsfélaga sínum.
Nú þegar þriðjungi tímabilsins er lokið er Ferrari orðið 123 stigum á eftir erkifjendum sínum hjá Mercedes. Góðu fréttirnar fyrir ítalska liðið eru þær að bíllinn hefur verið að batna með hverri keppninni.
Sebastian Vettel kom fyrstur í mark í síðustu keppni en fékk þó aðeins silfurverðlaun. Ástæða þess er sú að Þjóðverjinn fékk fimm sekúndna refsingu fyrir að koma hættulega inná brautina eftir útafakstur.

Á síðasta ári gerði Ferrari ökuþórinn alls sex mistök sem kostuðu hann sæti í keppnum. Þetta kostaði hann að lokum titilinn í fyrra þar sem Ferrari bíllinn var oftar en ekki hraðari en bíll Mercedes.
Eftir aðeins sjö keppnir á þessu ári hefur Vettel nú þegar gert tvö mistök. Sú fyrri komu á Barein brautinni er Þjóðverjinn snérist í slag sínum við Lewis Hamilton og svo núna síðast í Kanada.
Þó það megi alltaf rökræða hvort Sebastian hefði átt að fá refsingu eða ekki í Kanada er staðreyndin sú að ef hann hefði ekki gert mistök hefði hann unnið keppnina.
Það sama má sennilega segja um mistökin í Barein. Ferrari bílarnir voru mun hraðari en Mercedes á þeirri braut og hefði Vettel sennilega staðið uppi sem sigurvegari þar, í staðin endaði hann fimmti.
Nú er Þjóðverjinn 62 stigum á eftir Hamilton en munurinn gæti hæglega verið 26 stig án mistaka Vettel. Sérstaklega eru þessi mistök dýr í slag við Lewis Hamilton sem virðist aldrei slá feilhögg.

Honda mætir með uppfærðar vélar fyrir Red Bull liðið til Frakklands. Max Verstappen hefur reglulega endað á verðlaunapalli í ár og með nýrri vél gæti hann farið að slást um fyrsta sætið.
Brautin í Frakklandi hentar þó Mercedes bílunum best að mati Mattia Binotto, stjóra Ferrari. Þá segir stjóri Mercedes, Toto Wolff, að aflið í Ferrari vélinni muni nýtast liðinu vel á löngu beinu köflunum á Paul Ricard brautinni.
Þetta mun allt saman koma í ljós um helgina. Hægt verður að fylgjast með æfingum, tímatökum og kappakstrinum í þráðbeinni á Stöð 2 Sport. Kappaksturinn byrjar klukkan 13 á sunnudaginn.