Innlent

Segir Landspítalann ýta undir neikvæða staðalímynd af konum af erlendum uppruna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nichole Leigh Mosty gagnrýnir spítalann fyrir að ýta undir staðalímyndir með auglýsingum sínum.
Nichole Leigh Mosty gagnrýnir spítalann fyrir að ýta undir staðalímyndir með auglýsingum sínum. Vísir
Nichole Leigh Mosty, verkefnisstjóri hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og fyrrverandi þingmaður, gagnrýnir Landspítalann fyrir myndbirtingar með auglýsingum sínum um störf á Landspítalann. Með auglýsingu fyrir starf hjúkunarfræðings er birt mynd af íslenskum konum en fyrir starf í mötuneyti mynd af konu dökkri á hörund.

Myndirnar birtust á Facebook-síðunni Störf á Landspítala í morgun. Á þriðja tímanum í dag var auglýsingin fjarlægð af Facebook-síðu Landspítalans.

„Sem stjórnarmeðlimar og verkefnisstjóri hjá W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi vil ég óska eftir svar frá Landspítali varðandi auglýsingar um störf og hvernig hægt er að ýta undir neikvæð staðalímynd varðandi konur af erlendum uppruna,“ segir Nicole.

Hún segist hafa fengið ábendingar um auglýsingarnar tvær. Annars vegar eftir hjúkrunarfræðingi á kvennadeild og svo starfsmanni í eldhúsi. Hvítar íslenskar brosmildar konur óskist á kvenlækningadeild 21A og kona dökk á hörund með hárnet í eldhús.

Nichole segir að konan sem myndin sé af í síðari auglýsingunni hafi aldrei gefið leyfi fyrir því að hennar andlit yrði notað í auglýsingunni.

„Við óskum eftir því fyrir hennar hönd að mynd verður tekin niður og önnur hlutlaus mynd af starfinu verður sett í staðinn,“ segir Nichole. Það hefur nú verið gert.

En fremur telji Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi að óþarfi sé að Landspítalinn ýti undir staðalímynd af konum af erlendum uppruna í láglauna störfum og íslenskum konum í fagstarfinu. Þau viti vel að faglærðir hjúkrunarfræðingar af erlendum uppruna starfi á spítalanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×