Trump hefur undanfarna daga gert þær Alexandriu Ocasio-Cortez, Ilham Omar, Rashidu Tlaib og Ayönnu Pressley, fulltrúadeildarþingkonur Demókrataflokksins, að skotspóni sínum.
Hann sendi m.a. frá sér rasísk tíst um að þær ættu að yfirgefa Bandaríkin og „fara aftur heim til sín“. Aðeins ein þeirra fæddist utan Bandaríkjanna.
„Sendu hana til baka!“
Trump hélt uppteknum hætti á baráttufundinum í Norður-Karólínu í gær og beindi þar sérstaklega spjótum sínum að Omar. Hún fæddist í Sómalíu en kom til Bandaríkjanna tíu ára gömul.Eftir að hún komst inn á þing hefur hún verið gagnrýnin á stuðning Bandaríkjastjórnar við Ísrael og hefur sætt gagnrýni fyrir hvernig hún hefur talað um þrýstihóp fyrir ísraelsk stjórnvöld. Á fundinum laug Trump því upp á Omar að hún hefði lofað hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Eftir að hann fullyrti að Omar hefði gerst sek um gyðingaandúð gerði hann hlé á máli sínu því stuðningsmenn hans hrópuðu þá ákaft „Sendu hana til baka!“.
Trump fans eventually break out in "send her back!" chants directed toward Ilhan Omar, a Somali refugee who serves in Congress who Trump viciously smeared. pic.twitter.com/LX3eAEkfci
— Aaron Rupar (@atrupar) July 17, 2019
Ekki ánægður með hrópin
Forsetinn sagðist „ósammála“ þegar hann var spurður út í atvikið á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Hann fór þó ekki nánar út í það hverju hann væri nákvæmlega ósammála.„Ég var ekki ánægður með það. Ég er ósammála því. En aftur á móti, ég sagði þetta ekki, þeir gerðu það,“ sagði Trump.
Þá sagðist hann hafa reynt að stöðva hróp stuðningsmanna sína, þrátt fyrir að hafa beðið í um tólf sekúndur á meðan þeir kyrjuðu og þangað til hann tók aftur til máls.
Kvaðst Trump jafnframt hafa „liðið örlítið illa“ þegar stuðningsmennirnir hófu hrópin.
Forsetinn og stuðningsmenn hans hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir athæfið. Sjálf hefur Omar kallað Trump bæði rasista og fasista eftir baráttufundinn í gær.