Erlent

Sann­færði mann­ræningjann um að sleppa sér

Sylvía Hall skrifar
Frá Graz í Austurríki.
Frá Graz í Austurríki. Vísir/Getty
Austurríski þríþrautarkappinn Nathalie Birli segist hafa sannfært mannræningja sinn um að sleppa sér úr haldi aðeins nokkrum klukkustundum eftir að henni var rænt. Móðir hennar segir atburðarásina líkjast „vondri bíómynd“.

Birli segir manninn hafa rænt sér á þriðjudag þegar hún hjólaði nærri borginni Graz. Maðurinn hafi keyrt á hana með sendiferðabíl sínum, slegið hana í höfuðið með spýtu og bundið hana aftan í skottinu á bílnum. Hann hafi síðar farið með hana heim til sín þar sem hann afklæddi hana og hótaði að drekkja henni.

Atvikið átti sér stað klukkan 17 að staðartíma en Birli segist hafa misst meðvitund við áreksturinn. Hún handleggsbrotnaði þegar maðurinn keyrði á hana og hún muni einungis eftir því að hafa vaknað nakin og bundin við stól í ókunnugu húsi.

Hrósaði honum fyrir falleg brönugrös 

Maðurinn sagðist í upphafi ætla að sleppa henni næsta dag. Því næst batt hann fyrir augu hennar og neyddi hana til þess að drekka áfengi áður en hann fór með hana í baðkar og sagðist vilja drekkja henni.

Þegar Birli vakti máls á fallegum brönugrösum á heimili mannsins varð hann skyndilega rólegri og fór að segja henni frá erfiðum atvikum í lífi sínu. Hann sagðist hafa misst föður sinn, móðir hans væri alkóhólisti og að fyrrverandi kærustur hans hefðu svikið hann.

„Ég stakk upp á því við hann að við myndum segja að þetta hefði verið slys,“ sagði Birli eftir að henni var bjargað. Hún hafi séð tækifæri til þess að sleppa þegar maðurinn róaðist.

Hann skutlaði henni því næst heim til sín þar sem maki hennar var með rúmlega þriggja mánaða gamlan son þeirra. Hann hringdi í lögreglu sem handtók manninn stuttu seinna á heimili hans eftir að hafa staðsett hjól Birli á heimilinu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×