Við flugstöðina beið floti sérútbúinna jeppa frá hornfirska fyrirtækinu Ice Explores, ásamt rútubílum. Samkvæmt upplýsingum starfsmanns Ernis á flugvellinum, sem annaðist afgreiðslu beggja véla, var ferðahópurinn á leið í dagsferð að Jökulsárlóni. Hópurinn flýgur aftur til Reykjavíkur síðdegis og er þá aftur von á Bombardier-vél um svipað leyti og vél Ernis lendir þar einnig í áætlunarflugi.

Sjaldgæft er að svo stór vél sem Q400 lendi á Hornafirði en hún tekur 76 farþega. Hún er þó ekki sú stærsta sem þangað hefur komið en flugbrautin er 1.500 metra löng. Að sögn Ásgeirs flugvallarvarðar á fjögurra hreyfla farþegaþota færeyska félagsins Atlantic Airways metið, vél af gerðinni BAe 146. Sú hafði 95 sæti um borð og flutti Karlakór Hornafjarðar í söngferðalag til Færeyja.
Lending slíkrar vélar beint frá útlöndum yrði þó ekki leyfð í dag þar sem Hornarfjarðarflugvöllur er ekki lengur skilgreindur sem alþjóðavöllur. Til að fá tollafgreiðslu yrði slík vél fyrst að lenda á einhverjum þeirra fjögurra valla, sem hafa stöðu alþjóðaflugvallar hérlendis, en þeir eru Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir.

Bent er á að á Hornafirði sé þegar sinnt tollafgreiðslu gagnvart alþjóðlegri skipaumferð um Hornafjarðarhöfn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 fyrir tveimur árum um áformin í Lóni og tengingu þeirra við Hornafjarðarflugvöll.