Mótmælendur í Hong Kong láta engan bilbug á sér finna og er lögregla þar með mikinn viðbúnað vegna áframhaldandi aðgerða í dag. Tugir þúsunda manna hafa þegar safnast saman í borginni. Sérstaklega grannt er fylgst með þeim eftir að sprengiefni fannst sem hefur verið bendlað við mótmælendur.
Upphaflega beindust mótmælin í Hong Kong að umdeildu frumvarpi sem hefði heimilað framsal á fólki þaðan til meginlands Kína. Frumvarpið hefur verið fellt niður en mótmælin halda áfram og snúast nú almennt um lýðræði í Hong Kong.
Þetta er sjöunda helgi mótmælanna og er búist við tugum þúsunda manna á hefðbundnum stöðum mótmælenda í dag. Yfirvöld segjast búast við því versta í dag. Vegartálmar hafa verið styrktir og leið mótmælagöngu hefur verið breytt til að vísa mótmælendunum frá stjórnarbyggingum. Um 4.000 lögreglumenn eiga að gæta öryggis í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þrír voru handteknir í tengslum við sprengiefnið sem lögreglan lagði hald á fyrir helgi. Lögreglan segir að auk mikils magns sprengiefnis, hníf, járnstanga, gasgríma og hlífðargleraugna hafi hún fundið bæklinga og borða mótmælenda.
Í gær komu þúsundir manna saman í borginni til stuðnings lögreglunni og til að mótmæla ofbeldisverkum í mótmælum lýðræðissinna.
Mikill viðbúnaður vegna áframhaldandi mótmæla í Hong Kong

Tengdar fréttir

Áfram mótmælt í Hong Kong
Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong í dag. Mótmælin fóru fram í borginni Sha Tin sem liggur við landamæri Kína og Hong Kong.

Sprengiefni talin vera á vegum mótmælenda í Hong Kong
Lögreglan í Hong Kong rannsakar nú hvort að sprengiefnafarmur sem fannst í gær tengist mótmælunum sem hafa farið fram síðan um miðjan júní.