Nokkur hundruð manns voru mætt á skemmtunina sem hófst með fordrykk klukkan 20 og enn voru helstu stuðboltar að dansa í anddyri bíósins eftir miðnætti. Meðal þeirra sem fram komu á hátíðinni voru tónlistarfólkið Lay Low, Bubbi Morthens, Friðrik Ómar og Selma Björnsdóttir auk danslistamannsins Andrean Sigurgeirssonar sem kom fram með hópi kvendansara.
Listamenn komu fram í stórglæsilegu dragi en sumir þeirra sem komu fram í gær gerðu það líka á fyrstu hátíðinni árið 1999.
Bubbi flutti nýtt lag á hátíðinni, lagið Regnbogans stræti, af samnefndri plötu sem kemur út í dag. Þá flutti hann sömuleiðis Strákarnir á Borginni sem vakti mikla lukku. Var það rifjað upp að Bubbi hefði verið í fararbroddi í að sýna samkynhneigðum stuðning í verki á sínum tíma.
Þá flutti Aaron Ísak Berry nýja útgáfu af laginu Ég er eins og ég er og slúttaði þar með kvöldinu. Aaron Ísak sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor.
Heiður að geta þegið boðið
Forsetahjónin skemmtu sér vel á hátíðinni á fremsta bekk, klöppuðu með og jafnvel mátti sjá varir hreyfast í helstu Eurovision slögurum þegar leið á kvöldið. Að skemmtun lokinni, þegar ljósin höfðu verið kveikt, voru fjölmargir sem gáfu sig á tal við hjónin og smellt var í nokkrar sjálfur.
„Það er heiður og ánægja að því að vera boðið og geta þegið gott boð. Það var bæði skemmtanagildið og svo hitt að geta stutt í verki gildi fjölbreytni og umburðarlyndis í samfélaginu. Hér var gott að vera í góðra vina hópi,“ sagði Guðni forseti.
Eliza talaði á sömu nótum.
„Það var ótrúleg stemmning eins og alltaf og mjög gaman. Mér finnst mikilvægt að mæta og sýna öllu samfélaginu stuðning.“

Lítill Magnús Magnús Magnússon
Forsetahjónin klöppuðu með þegar við átti. Fólk grínaðist með það að Guðni væri líklega ekki taktfastasti forseti sögunnar þegar kæmi að klappinu. Hans styrkleikar lægju á öðrum sviðum.Blaðamaður hitti á forsetahjónin í Hollandi 2017 þar sem klappgeta Guðna var til umræðu í framhaldi af áramótaskaupinu þar sem Magnús Magnús Magnússon, stuðningsmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu, fór mikinn. Honum var fyrirmunað að ná að klappa með Víkingaklappinu. Guðni hefur lítið bætt sig á þessu sviði.
„Hann er alveg eins vondur og áður,“ sagði Eliza og hló.
„En hann reyndi og það skiptir mestu máli. Við erum öll bara eins og við erum.“
Guðni bætti við að í honum væri einfaldlega lítill Magnús Magnús Magnússon.