Fótbolti

Nýjasti leikmaður Barcelona hótaði því einu sinni að brjóta báða fætur Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Junior Firpo og Lionel Messi.
Junior Firpo og Lionel Messi. Samsett/Getty
Barcelona gekk á dögunum frá kaupunum á Junior Firpo frá Real Betis en strákurinn hefur slegið í gegn með bæði liði Betis og með spænska 21 árs landsliðinu.

Junior Firpo er 22 ára vinstri bakvörður sem er fæddur á Dóminíska lýðveldinu en flutti til Spánar þegar hann var sex ára gamall.

Eftir að fréttist af kaupum Barca á stráknum þá voru spænskir miðlar fljótir að rifja upp það sem Junior Firpo setti á Twitter þegar hann var miklu yngri.



Junior Firpo er að ganga til liðs við Barcelona þar sem kóngurinn er Lionel Messi. Junior var aftur á móti ekki mjög hrifinn af Messi þegar strákurinn var enn á táningsaldri.

Þegar Junior Firpo var fimmtán ára gamall þá tjáði hann sig villimannslega um Messi á Twitter. Spænska blaðið AS sagði frá því að hann hafi monntað sig af því á Twitter að geta fótbrotið Messi á báðum fótum með aðeins einu sparki.

Hann sagðist líka vera alveg skítsama um það hvort Messi myndi meiðast og kallaði hann Tíkarson. „Ég vona að hann deyi og hætti að skora mörk,“ skrifaði Junior Firpo á Twitter.





Junior Firpo hefur beðist afsökunar á færslum sínum og hann gat ekki kvartað yfir neinu þegar hann mætti fyrst í búningsklefann hjá Börsungum.

Firpo skýrði mál sitt í viðtali við blaðamann Mundo Deportivo. „Ég sagði ljóta hluti um Messi á Twitter til að stríða honum. Þetta var bara barnaskapur,“ sagði Junior Firpo

„Þetta er það sem ég skrifaði þegar var bara fimmtán ára gamall. Þá þekkir þig enginn og þú gerir þér ekki grein fyrir því að þetta gæti haft einhverjar afleiðingar í framtíðinni,“ sagði Junior Firpo.

Nú sparar hann ekki hrósið þegar kemur að Lionel Messi. „Ég segi alltaf þegar fólk er að tala um Gullknöttinn (Ballon d'Or). Þeir eiga bara að láta Messi fá hann strax og búa síðan til önnur verðlaun sem hinir mannlegu geta keppt um,“ sagði Junior Firpo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×