Hlé hefur verið gert á leitinni við Þingvallavatn sem blásið var til á fimmta tímanum í dag þegar lítill bátur fannst á floti í vatninu. Engar frekari vísbendingar hafa fundist um mannaferðir en leitarmenn fundu bakpoka í flæðarmálinu í kvöld. Mikill öldugangur í vatninu hefur reynst björgunarmönnum erfiður.
Tilkynnt var um bátinn síðdegis í dag og í kjölfarið voru tugir björgunarmanna ræstir út frá björgunarsveitum á Suðurlandi og frá höfuðborgarsvæðinu, auk liðs frá lögreglu á Suðurlandi og brunavörnum Árnessýslu.
Davíð Már Björgvinsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi nú á ellefta tímanum að leitarmenn komi aftur saman um níuleytið í fyrramálið. Um sjötíu manns tóku þátt í leitinni í dag en Davíð gerir ráð fyrir sambærilegum fjölda við leitina á morgun. Haldið verður áfram að leita í fjörunni við vatnið og í bátum á vatninu sjálfu.
Davíð segir að ekkert hafi fundist sem gefi til kynna að manneskja hafi verið um borð í bátnum, sem er lítill hobbíbátur. Leitarmenn fundu bakpoka í flæðarmálinu í kvöld en ekki hefur fengist staðfest að bakpokinn tengist bátnum og mögulegum mannaferðum.
Aðstæður voru „sæmilega erfiðar“ við leitina í dag, að sögn Davíðs.
„Það var mikill öldugangur og erfitt fyrir bátafólkið að vera á vatninu, það var enginn friður,“ segir Davíð.
