Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur heimildir fyrir því að eiturlyfjasmyglararnir tveir, sem voru handteknir við komuna til landsins fyrir mánuði síðan með rúmlega 40 kíló af sterkum fíkniefnum, hafi komið til Íslands í fyrrasumar.
Mennirnir sem eru með rúmenskt og þýskt ríkisfang komu til landsins með Norrænu líka í fyrrasumar á sömu nöfnum en einnig á sama bílnum, sem var með sérinnréttuðu hólfi.
Lögreglustjórinn á Austurlandi verst allra fregna en 16. ágúst síðastliðinn féllst héraðsdómari á kröfu Lögreglustjórans á Austurlandi að gæsluvarðhald yfir mönnunum yrði framlengt um fjórar vikur.
Ríkisútvarpið kveðst þá einnig hafa heimildir fyrir því að annar þeirra hefði komið til landsins með flugi á síðustu misserum.
Um er að ræða eitt mesta magn fíkniefna sem lögregla hefur lagt hald á hérlendis.

