Í tilkynningunni segir einnig að tíu ára tónleikastand hafi tekið sinn toll á hljómsveitarmeðlimi, sem hafi þurft að leggja önnur verkefni til hliðar, bæði persónu- og vinnutengd. Nú sé kominn tími til að búa til pláss fyrir þau.
Ákvörðun hljómsveitarinnar um að taka sér pásu kemur eflaust mörgum á óvart en hljómsveitin fór í tónleikaferð í fyrravetur og spilaði á ýmsum tónlistarhátíðum í sumar. „Við erum búnir að ræða þetta okkar á milli í dálítinn tíma þannig að þetta er engin skyndiákvörðun,“ segir Jón Geir Jóhannsson, trommari sveitarinnar í samtali við fréttastofu Vísis.
Hann segir ekki útilokað að sveitin snúi aftur: „Já, það held ég alveg. Hvenær það verður veit ég ekki. En eins og ég segi þá er þetta bara akkúrat rétti tíminn til að stíga aðeins aftur og verja tíma með fjölskyldunni.“
„Hætta hljómsveitir einhvern tíman? Nema bara hljómsveit eins og Bítlarnir og það er bara af því að þeir fóru að deyja. Við erum ekkert í því,“ segir Jón Geir hlæjandi.
Hljómsveitin mun halda eins konar kveðjutónleika þann 21. desember næstkomandi á vetrarsólstöðunum. „Merkið 21. desember í dagatalið og reiknið með að vera í Reykjavík á þeim tíma ef þið viljið fagna með okkur. Þá höldum við veislu sem fer svo sannarlega í sögubækurnar, viðburð sem við kynnum mjög bráðlega,“ bætir sveitin við í færslunni.
„Takk fyrir ótrúlegan áratug. Litla hobbíbandið okkar varð svo sannarlega að skrímsli og nú þarf að hvíla sig.“