Gylfi Þór Sigurðsson hélt í gær upp á þrítugsafmælið sitt með því að ferðast með íslenska landsliðinu til Albaníu.
Gylfi fæddist 8. september 2019 og fékk því sigur á Moldóvum í hálfgerða afmælisgjöf á laugardaginn.
Gylfi lék þar landsleik númer 69 og það eru aðeins þrír leikmenn sem hafa náð að spila fleiri A-landsleiki fyrir þrítugsafmælið sitt.
Efstur á blaði er fyrirliði landsliðsins í dag, Aron Einar Gunnarsson, sem hélt upp á þetta stórafmæli fyrr á þessu ári. Aron Einar varð þrítugur 22. apríl síðastliðinn og var þá nýbúinn að spila sinn 83. landsleik.
Aron Einar hafði þar gert betur en landsleikjametshafinn Rúnar Kristinnsson sem lék 77 af 104 landsleikjum sínum fyrir þrítugsafmælið sitt.
Jóhann Berg Guðmundsson er síðan sá þriðji en hann getur enn bætt við leikjum því hann verður ekki þrítugur fyrr en í lok október á næsta ári. Jóhann Berg er níu leikjum á eftir Aroni Einari og á því möguleika á metinu.
Jóhann Berg gat ekki spilað með landsliðinu í núverandi verkefni en verður vonandi búinn að ná sér fyrir verkefnin í október.
Hér fyrir neðan má sjá þá leikmenn sem hafa spilað oftast fyrir íslenska landsliðið fyrir þrítugsafmælið sitt.
Flestir landsleikir fyrir þrítugsafmælið sitt:
83 - Aron Einar Gunnarsson
77 - Rúnar Kristinsson
74 - Jóhann Berg Guðmundsson (ekki orðinn)
69 - Gylfi Þór Sigurðsson
65 - Birkir Bjarnason
62 - Guðni Bergsson
61 - Ólafur Þórðarson
61 - Indriði Sigurðsson
58 - Ragnar Sigurðsson
57 - Arnar Grétarsson
55 - Hermann Hreiðarsson
54 - Marteinn Geirsson
54 - Helgi Sigurðsson
54 - Brynjar Björn Gunnarsson
53 - Eiður Smári Guðjohnsen
53 - Alfreð Finnbogason
