Washington Post sagði nýverið frá 14 ára stúlku sem lést í búðunum. Móðir hennar, frá Aserbaísjan, sagði hjálparstarfsmönnum að stúlkan hefði runnið til og dottið. Það hefði ekkert verið hægt að gera.
Á líki hennar fundust þó vísbendingar um að hún hefði verið barin og myrt. Til dæmis höfðu þrjú bein í hálsi hennar verið brotin. Í ljós hefur komið að stúlkan hafði stungið upp á því að hún myndi hætta að bera andlitsslæðu (niqab) sem konum var skilyrt að bera í Kalífadæmi Íslamska ríkisins. Slæða þessi hylur nánast allt andlit kvenna.
Fyrir vikið var hún myrt af öðrum konum sem aðhyllast enn gildi ISIS og eru sagðar stjórna búðunum.
Heimildarmenn WP segja barsmíðar og annars konar ofbeldi algengt og til dæmis hafi ólétt kona frá Indónesíu verið myrt eftir að hún ræddi við vestrænan fjölmiðil og virtist sem að þar að auki hafi hún verið húðstrýkt.
Hjálparstarfsmenn, rannsakendur og bandarískir embættismenn segja allt stefna í hörmungar í al-Hol búðunum.
Meðal íbúa búðanna eru konur frá Írak, sem óttast að fara heim þar sem ISIS-liðar hafa verið teknir af lífi í massavís og oftar en ekki eftir stutt réttarhöld.
Sjá einnig: Dæmdir til dauða eftir átján mínútna réttarhöld
Þá eru um tíu þúsund konur frá minnst 50 öðrum ríkjum í búðunum en heimalönd þeirra vilja ekki fá þær heim, í flestum tilfellum. Kúrdar og Bandaríkin hafa kallað eftir því að tekið verði á móti þessum konum og erlendum karlkyns ISIS-liðum þar sem Kúrdar hafi ekki burði til að halda þeim til langs tíma.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gefið í skyn að ISIS-liðar verði einfaldlega sendir til síns heima, án aðkomu yfirvalda þeirra ríkja.
Aðstæður í búðunum eru þó vægast sagt slæmar. Blaðamenn New York Times ræddu nýverið við hjálparstarfsmenn og aðra í búðunum sem lýstu því hvernig sjúkdómar og hungur herjar á íbúana. Tjöldin sem þau búa í eru nístingsköld á veturna og sjóðandi heit á sumrin. Vatnið í búðunum er smitað af E. coli og sögðust hjálparstarfsmenn hafa séð börn drekka vatn úr tanki þar sem ormar komu úr stútnum.
306 ung börn dáin á nokkrum mánuðum
Human Rights Watch gaf út skýrslu í sumar þar sem segir að börn séu að deyja úr sjúkdómum og vannæringu og kölluðu mannréttindasamtökin eftir því að heimaríki erlendra íbúa búðanna tækju á móti þeim. Frá desember og fram til ágúst er vitað til þess að 306 börn undir fimm ára hafi dáið í al-Hol.
„Þetta er hringrás ofbeldis,“ sagði Sara Kayyali, einn rannsakenda HRW, við New York Times. Hún sagði fólkið í al-Hol í raun eiga engra kosta völ en að snúa sér aftur að boðskap og hugmyndafræði Íslamska ríkisins.
Umræddar búðir eru varðar af um 400 hermönnum Kúrda, sem studdir eru af Bandaríkjunum, og hafa nokkrir þeirra verið stungnir af konum ISIS. Embættismenn Kúrda segjast geta varið búðirnar og haldið konunum þar föngnum en segjast ekki hafa burði til að gera mikið meira en það.
„Við getum haldið konunum en við getum ekki stýrt hugmyndafræði þeirra,“ sagði einn embættismaður Kúrda við Washington Post. „Það eru margar tegundir fólks þarna, en sumar konurnar voru prinsessur innan ISIS. Í búðunum eru svæði sem eru í raun skólar þeirra.“
„Þessi börn þurfa hjálp. Maður sér það á þeim. Hvernig komum við í veg fyrir að þau verði að foreldrum sínum?“