Fimm áhafnarmeðlimum var bjargað frá brennandi bátsflakinu en tilkynning barst klukkan 03:30 að staðartíma. Báturinn var staddur um það bil 145 kílómetrum vestur af Los Angeles þegar eldurinn kom upp, átján metrum frá strönd eyjunnar Santa Cruz. Eyjan liggur úti fyrir strönd Kaliforníu, skammt frá borginni Santa Barbara.
Báturinn hafði verið í þriggja daga köfunarferð og var dagurinn í dag síðasti dagur ferðarinnar en báturinn var í eigu köfunarfyrirtækisins Truth Aquatics. Ekki er talið að vanræksla á viðhaldi hafi orðið til þess að eldurinn kom upp að sögn strandgæslunnar, en báturinn hafði alltaf uppfyllt allar öryggiskröfur við skoðanir.
Í frétt BBC kemur fram að líklegt sé að þeir sem komust lífs af hafi verið sofandi í aðalfarrými bátsins á meðan aðrir farþegar sátu fastir í káetum sínum fyrir neðan þilfarið. Þeir fimm sem björguðust stukku af bátnum ofan í sjó þar sem þeim var komið til bjargar.
Björgunaraðgerðir standa enn yfir en aðstæður á vettvangi eru sagðar slæmar þar sem mikil þoka er á svæðinu.