Erlent

Börnin heima þegar móðir þeirra var stungin til bana

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nágrannar hringdu í lögreglu eftir að börn konunnar hlupu út og kölluðu eftir aðstoð og 
Nágrannar hringdu í lögreglu eftir að börn konunnar hlupu út og kölluðu eftir aðstoð og  Getty

Victoria Hart, 33 ára gömul þriggja barna móðir frá Bretlandi, var stungin til bana á heimili sínu á Spáni um helgina. Börn hennar voru heima þegar móður þeirra var ráðinn bani, en elsti sonur hennar sem er ellefu ára, mun hafa kallað eftir aðstoð. Sex ára tvíburadætur Hart voru einnig í húsinu en meintur árásarmaður er sagður hafa sjálfur gefið sig fram við lögreglu.

Breska blaðið Time greinir frá málinu um helgina, en Victoria Hart var búsett í Alhaurin el Grande í Andalúsíu, í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Malaga, þar sem hún starfaði sem hárgreiðslukona. Nágrannar hringdu í lögreglu eftir að hafa heyrt öskur rétt fyrir hádegi á laugardaginn var. Hart fannst stunginn á gólfinu og við hlið hennar lá hnífur sem grunur er um að hafi verið árásarvopnið.

Time hefur eftir nágrönnum að börnin hafi hlaupið út í sameiginlegan garð íbúðabyggingarinnar og kallað eftir aðstoð. Þá er sonurinn sagður hafa hringt í ömmu sína og hafi sagt henni að „pabbi hafi drepið mömmu.“

Juan Antonio Rueda, sem sagður er fyrrverandi eiginmaður Hart, hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn. Hann rak kjúklingastað í bænum og er sagður hafa gefið sig sjálfur fram í fangelsi á svæðinu þar sem hann hafi sagt starfsfólki að handtaka sig þar sem hann hafi „gert dálítið mjög slæmt.“

Samband þeirra Hart og Rueda mun hafa hafist árið 2011 og þau gengið í hjónaband árið 2017 og átt saman börnin þrjú. Þau hafi síðan skilið fyrir nokkrum mánuðum síðan og Hart farið fram á nálgunarbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×