Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fram breytingar á áfengislögum sem leyfi sölu á áfengi í netverslunum hér á landi.
Í lagabreytingafrumvarpinu, sem ríkisstjórnin áætlar að leggja fram á Alþingi í mars á næsta ári, er einnig lagt til að áfengisframleiðendum verði gert heimilt að selja vörur sínar á framleiðslustað. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi þing og greindi RÚV fyrst frá.
Verði frumvarpið að lögum yrði öðrum söluaðilum en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að selja áfengi í gegnum vefverslanir og myndi það því fela í sér að einkaleyfi ríkisins á áfengissölu hér á landi yrði afnumið, er fram kemur í frétt RÚV.
Samkvæmt núgildandi lögum er þó heimilt að kaupa áfengi í gegnum erlendar vefverslanir og er neytendum þá gert að greiða áfengisgjald og virðisaukaskatt.
Frumvarp myndi leyfa sölu á áfengi í netverslunum
Eiður Þór Árnason skrifar
