„Ég tel mikilvægt að þessi vinna sé upphafið á stefnumótun og skipulagsbreytingum innan lögreglunnar. Nú eru liðin fimm ár frá því að umtalsverð endurskipulagning átti sér stað og það er komin talsverð reynsla á skipulagið. Vegna stöðunnar sem er uppi er nauðsynlegt að skoða þessi mál vel og hratt,“ segir ráðherrann sem einnig fundaði með Landssambandi lögreglumanna og Félagi lögreglustjóra í gær.
„Það kom skýrt fram á fundi mínum með ríkislögreglustjóra að við erum sammála um að fyrirkomulagið í dag sé ekki að virka. Ég er opin fyrir breytingum sem gætu aukið hagkvæmni og minnkað yfirstjórn.“ Sjálfur hefur Haraldur sagst vilja hafa einn lögreglustjóra yfir landinu og vilja „fækka silkihúfum“.

Lögreglustjórafélagið hefur einnig fundað vegna málsins, þar sem viðtal Morgunblaðsins við ríkislögreglustjóra var meðal annars rætt. Í viðtalinu hótar hann því að ljóstra upp um spillingu innan lögreglunnar verði hann látinn fara.
Samkvæmt heimildum hefur engin tilkynning borist frá ríkislögreglustjóra til héraðssaksóknara um meinta spillingu. Engin ákvörðun hefur verið tekin hjá héraðssaksóknara um hvort hafin skuli rannsókn vegna þeirra fullyrðinga um spillingu sem hafðar voru eftir ríkislögreglustjóra í viðtalinu.