Króatíski framherjinn Mario Mandzukic er að yfirgefa ítalska meistaraliðið Juventus og eru nokkur lið í Katar sem berjast nú um undirskrift kappans.
Mandzukic var ekki í Meistaradeildarhópi Juventus sem var tilkynntur á dögunum en hann hefur leikið með liðinu undanfarin fjögur ár og skoraði 9 mörk í 25 deildarleikjum á síðustu leiktíð.
Mandzukic dró sig úr leikmannahópi Juventus gegn Fiorentina um síðastliðna helgi.
Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum er Al-Rayyan líklegast til að klófesta Mandzukic og mun hann hitta forráðamenn félagsins í dag. Al-Gharafa og Al-Duhail hafa einnig fengið leyfi til að ræða við kappann.
Mandzukic er 33 ára gamall og gerði garðinn frægan með Wolfsburg, Bayern Munchen og Atletico Madrid áður en hann gekk í raðir Juventus 2015.
