Erlent

Segir Írani bera ábyrgð á drónaárásunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var ómyrkur í máli á Twitter fyrr í dag.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var ómyrkur í máli á Twitter fyrr í dag. Vísir/Getty
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar írönsk stjórnvöld um að standa að baki drónaárásum á sádiarabískar olíuvinnslustöðvar fyrr í dag.

Jemenskir húta-uppreisnarmenn, sem eru hallir undir Írani, hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum og segja að vænta megi fleiri árása í framtíðinni. Ráðist var á tvær stærstu olíuframleiðslustöðvar Sádi-Arabíu. Stöðvarnar eru í eigu ríkisfyrirtækisins Aramco. Sú stærri er sú stærsta í heimi og framleiðir um eitt prósent allra olíubirgða heims.

„Tehran stendur á bak við naumlega 100 árásir á Sádi-Arabíu á meðan Rouhani og Zarif þykjast standa í einhvers konar ríkiserindrekstri,“ tísti Pompeo fyrr í dag. Á hann þar við Hassan Rohani, forseta Írans, og Javad Zarif utanríkisráðherra.





Áður en Pompeo lét þessi orð falla á Twitter sagði Hvíta húsið í yfirlýsingu að Trump forseti hafi átt samtal við Mohammad bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. Er hann sagður hafa boðið fram stuðning Bandaríkjanna við að „verja Sádi-Arabíu.“

Sádi-Arabía styður jemensk stjórnvöld í baráttu sinni við Hútana, sem á móti eru studdir af Íran, en borgarastyrjöld milli fylkinga hefur staðið yfir síðan árið 2015.

„Óábyrg einföldun“

Chris Murphy, þingmaður Demókrataflokksins og meðlimur utanríkismálanefndar þingsins, svaraði Pompeo á Twitter þar sem hann gagnrýndi orð utanríkisráðherrans.

„Þetta er ótrúlega óábyrg einföldun og það er svona sem við komum okkur í heimskuleg stríð eftir hentisemi. Sádi-Arabía og Hútarnir eiga í stríði. Sádar ráðast á Hútana og Hútarnir svara í sömu mynt. Íranir styðja við Hútana og hafa verið lélegir leikarar, en þetta er ekki jafn einfalt og að segja Hútar = Íran.“





Ekki liggur fyrir hvort manntjón varð í árásunum tveimur, en mikill eldur braust út í kjölfar þeirra. Viðbragðsaðilum tókst þó fljótt að koma böndum á hann.


Tengdar fréttir

Olíuframleiðsla í Sádi-Arabíu dregst saman eftir drónaárásir

Olíuframleiðsla í Sádi-Arabíu hefur dregist verulega saman í dag eftir drónaárásir á tvær af stærstu olíuframleiðslustöðvar landsins. Stöðvarnar eru í eigu ríkisfyrirtækisins Aramco, en hinir jemensku Húta-uppreisnarmenn hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×